Byrjað er að taka á móti umsóknum í viðskiptasmiðjuna Startup Reykjavík fyrir árið 2013. Tíu fyrirtæki verða valin úr hópi umsækjenda og mun Arion banki fjárfesta í hverju þeirra fyrir tvær milljónir króna gegn 6% eignarhlut. Auk þess munu fyrirtækin fá aðgang að sameiginlegri skrifstofuaðstöðu í þær 10 vikur sem prógrammið stendur yfir og njóta leiðsagnar yfir 50 leiðbeinenda (e. mentor) sem allir búa yfir víðtækri reynslu úr háskóla- eða atvinnulífinu.

Viðskiptasmiðjunni var ýtt úr vör í fyrrasumar en markmið hennar er að skapa umgjörð þar sem frumkvöðlar njóta ráðgjafar og leiðsagnar þeirra reynslumeiri. Startup Reykjavík er samstarfsverkefni Arion banka og nýsköpunar- og frumkvöðlasetranna Innovit og Klaks. Arion banki leggur til fjármagn og aðstöðu en umsjón prógrammsins er í höndum starfsmanna Innovit og Klaks. Startup Reykjavík er hluti af Global Accelerator Network, sem er alþjóðlegur hluti starfsemi Techstars í Bandaríkjunum. Samstarfið við Global Accelerator Network felur í sér tækifæri fyrir ung fyrirtæki til að kynna viðskiptahugmyndir fyrir erlendum aðilum bæði hvað varðar þróun sinna hugmynda og mögulega framtíðarfjármögnun.

Fengu 90 milljónir í styrki

Fjögur fyrirtæki sem fóru í gegnum Startup Reykjavík í fyrra sóttu um styrki úr Tækniþróunarsjóði. Þau fengu öll styrki upp á samtals 90 milljónir króna. Þetta voru fyrirtækin When Gone (2 ár x 5 m.kr.), Designing Reality (2 ár x 10 m.kr.), Eski Tech (3 ár x 10 m.kr.) og Cloud Engineering (3 x 10 m.kr.).