„Markmið okkar með WOW Cyclothon er að búa til alþjóðlega keppni sem laðar að sér fjölda fólks og vekur áhuga á Íslandi sem náttúruparadís,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri Wow air. Hann bendir á það í tilkynningu sem fylgir umfjöllun um WOW Cyclothon hjólreiðakeppnina, að ekki sé síður mikilvægt að styðja gott málefni Barnaheilla og geta vakið athygli á heilsusamlegu líferni á sama tíma.

Aðstandendur keppninnar hvetja hjólreiðafólk til að fjölmenna við Hörpu kl. 17 í dag og fylgja keppendum úr hlaði. Lagt verður af stað kl. 18 og keppendur hjóla í lögreglufylgd frá Hörpu að Ártúnsbrekku. Einnig eru ökumenn landsins hvattir til að sýna aðgát nálægt keppendum dagana 19.-22. júní. Skúli tekur sjálfur þátt í keppninni með karlaliði Wow air.

Í keppninni verður hjólað  með boðsveitarformi hringinn í kringum landið, um Hvalfjörð og yfir Öxi, samtals 1.332 kílómetra á innan við 72 tímum. Um 200 manns eru skráðir til keppninnar sem er sprenging miðað við síðasta ár þegar aðeins 78 tóku þátt í henni.

Í A- flokki keppa 18 fjögurra manna lið. Sú nýjung er í keppninni í ár að boðið er upp á B-flokk en þessi flokkur býður upp á rýmri regluramma og möguleika á allt að 10 manns séu saman í liði sem vinna saman að því að komast í mark innan tímamarka. Í ár munu sjö tíu manna lið taka þátt í þessum flokki.

Vefur WOW Cyclothon