„Við þurfum að vera með báðar fæturna á jörðinni. Það er ekki búið að finna olíu og við vitum ekki hvort hún er vinnanleg,“ segir Guðmundur Steingrímsson, þingmaður utan flokka. Hann lagði á það áherslu að Íslendingar haldi aftur af sér í fyrirhugaðri olíuleit á Drekasvæðinu og ani ekki út í einhverja vitleysu. Á sama tíma verði að ákveða hvaða stefnu skuli taka í umhverfismálum þar sem notkun jarðefnaeldsneytis stuðli að umhverfisvá. „Við höfum oft farið illa út úr gullgrafarahugarfari,“ sagði Guðmundur.

Það var Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem vakti máls á olíuleit á svæðinu í sérstakri umræðu á Aliþngi í dag. Til andsvara var Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Nokkuð skýr skipting var á milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga í umræðunum.

Sem dæmi sagði Jón Gunnarsson, flokksbróðir Einars K., það fagnaðarefni að málið væri farið af stað. Á sama tíma gagnrýndi hann ráðherra atvinnu- og umhverfismála fyrir að tala óskýrt, s.s. í tengslum við uppbyggingu í atvinnumálum. Öðru máli gegni um olíuleitina.

„Það er ekki fyrirsjáanlegt hvað slík vinnsla muni gefa þjóðinni. Það er fyrirsjáanlegt að það er búið að gera samninga og hámarkstími til rannsókna eru 16 ár,“ sagði hann og vísaði á bug þeim orðum Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra að ekki sé hægt að tala um að markmiðið sé að kanna hvort auðlindin sé fyrir hendi. Ef hún er fyrir hendi og í vinnanlegu magni þá verður farið í olíuvinnslu, að hans sögn.