Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, sem haldinn var um helgina, segir þær 1.200 króna raunkjarabætur sem fjárlagafrumvarpið leggi til „blauta tusku í andlitið“. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundinum .

Bent er á að í framlögðu fjármálafrumvarpi sé gert ráð fyrir 3,4% hækkun örorkulífeyris, en verðbólguspá fyrir sama tímabil sé 2,9%, og hækkunin jafngildi því um 0,5% væntri raunhækkun. Sú hækkun er sögð jafngilda um 1.200 krónum á mánuði fyrir skatt, og stjórnvöld sögð bregðast þeim sem síst skyldi.

Þá er fullyrt að þrátt fyrir lengsta hagvaxtarskeið sögunnar hafi örorkulífeyrisþegar ekki fengið kjaraleiðréttingu á við aðra hópa. Á tímabilinu 2010-2016 hafi örorkulífeyrir hækkað um 60 þúsund, og óskertur lífeyrir sé 204 þúsund á mánuði eftir skatt, en á sama tímabili hafi þingfararkaup hækkað um 600 þúsund. Við það bætist svo „krónu á móti krónu“ skerðing, sem haldi örorkulífeyrisþegum í fátæktargildru með lága framfærslu.

Ályktunin í heild sinni:

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 5. og 6. október 2018, krefst þess að Alþingi breyti fjárlagafrumvarpi ársins 2019 og forgangsraði í þágu þeirra sem verst standa í íslensku samfélagi.

Stjórnvöld hafa sýnt á spilin. Nú hefur fjármálaráðherra lagt fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019. Þar er gert ráð fyrir að greiðslur TR til örorkulífeyrisþega hækki um 3,4%. Á sama tíma er verðbólguspá 2,9%. Því er raunhækkun ekki nema 0,5% ef spár standast. Enn og aftur bregðast stjórnvöld þeim sem síst skyldi með því að afhenda fötluðu og langveiku fólki raunhækkun upp á 1.200 kr. á mánuði fyrir skatt.

Einstaklingur með óskertan örorkulífeyri hefur einungis 204.000 kr. til ráðstöfunar á mánuði eftir skatt. Þrátt fyrir lengsta hagvaxtarskeið sögunnar hafa örorkulífeyrisþegar ekki fengið leiðréttingu á sínum kjörum eins og aðrir hópar. Þvert á móti er stórum hópi örorkulífeyrisþega haldið í fátæktargildru með lága framfærslu og „krónu á móti krónu“ skerðingu auk þess sem frítekjumörk hafa verið óbreytt frá hruni.

Almenningur tók á sig kjaraskerðingu í kjölfar hruns 2008. Síðan þá hafa aðrir hópar samfélagsins fengið leiðréttingu á kjörum en ekki fatlað og langveikt fólk. Á tímabilinu 2010-2016 hækkaði þingfararkaup um tæp 600.000 kr. á mánuði á meðan örorkulífeyr-ir TR hækkaði einungis um 60.000 kr.

Það er öllum ljóst að „kjarabætur“ upp á 1.200 kr. eins og nú er lagt til, er blaut tuska í andlitið sér í lagi þegar haft er í huga að forsætisráðherra hefur í ræðu og riti lagt áherslu á að sporna gegn fátækt og ójöfnuði. Framkvæmdin er allt önnur.