Bókaverslanir Eymundsson og önnur fyrirtæki Pennans munu verða með bleikum blæ á morgun mánudag. Tilgangurinn er leggja árveknisátaki um brjóstakrabbamein lið og hvetja konur til að nýta sér boð Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins um röntgenmyndatöku.

Fjórði mánudagur októbermánaðar er alþjóðlegur dagur árvekni átaksins og er dagurinn kenndur við bleiku slaufuna. Penninn ehf styður við átakið með kaupum á bleiku slaufunni fyrir allt starfsfólk sitt. Til að vekja enn meiri athygli á átakinu verður bleiki liturinn áberandi í útstillingum verslana fyrirtækisins; Pennanum, Eymundsson, Griffli og Bókabúð Máls og menningar.

Í október hefur Krabbameinsfélagið vakið athygli á brjóstakrabbameini og mikilvægi þess að konur komi í skoðun. Seldar hafa verið bleikar slaufur en ágóðinn rennur til kaupa á nýju ómtæki fyrir Leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Ómtækið verður notað til nánari greiningar eftir brjóstamyndatökur og við frumrannsókn á brjóstum hjá ungum konum með einkenni.