Bandaríski smásölurisinn Wal-Mart tilkynnti í gær að hagnaður félagsins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hefði hækkað um 8% samanborið við árið í fyrra. Nam hagnaðurinn 2,83 milljörðum Bandaríkjadala, sem var í samræmi við spár greiningaraðila. Þessi hagnaðaraukning náðist með því að skera verulega niður í rekstrarkostnaði fyrirtækisins en til þeirra ráðstafana var nauðsynlegt að grípa þar sem sala hefur minnkað að undanförnu.

Wal-Mart greindi einnig frá því að afkoma félagsins á öðrum ársfjórðungi yrði væntanlegi verri heldur en spár greiningaraðila á Wall Street gera ráð fyrir. Gengi hlutabréfa í Wal-Mart hækkaði um 0,4% þegar markaðir opnuðu í gær og stóð í 47,65 dölum á hlut.