*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 4. september 2019 16:04

Blendin breyting í litlum viðskiptum

Úrvalsvísitalan stóð nánast í stað í viðskiptum dagsins sem rétt námu milljarði. Allar sveiflur undir 1 prósenti.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um rétt 0,05%, upp í 2.015,85 stig, í viðskiptum dagsins, en þau námu í heildina 993,6 milljónum króna.

Mest hækkun var á gengi bréfa Arion banka, eða um 0,89% í þó ekki nema 16 milljóna króna viðskiptum og fór gengið í 79,20 stig. Næst mest hækkun var á gengi bréfa Reginn, eða um 0,71%, upp í 21,20 krónur, í pínulitlum, eða rétt undir 200 þúsund króna viðskiptum. Loks er þriðja mesta hækkunin með bréf Sjóvá, sem hækkuðu í 101 milljóna viðskiptum um 0,60%, upp í 16,75 krónur.

Mestu viðskiptin voru með bréf Marel, eða fyrir 241 milljón krónur, en þau stóðu samt sem áður í stað í 583,0 krónum. Næst mestu viðskiptin voru með bréf Kviku banka, eða fyrir 151 milljón króna, en bréfin hækkuðu um 0,23%, upp í 10,72 krónur.

Mest lækkun var á gengi bréfa Sýnar, eða um 0,71%, niður í 27,80 krónur, í 23 milljóna króna viðskiptum. Næst mest lækkun var á gengi bréfa Haga, eða um 0,62% í 30 milljóna króna viðskiptum og var lokagengi félagsins 39,90 krónur. Þriðja mesta lækkunin var á gengi bréfa Eimskipafélags Íslands, eða um 0,56%, í tæplega 900 þúsund króna viðskiptum og nam lokagengið 176,0 krónum.

Krónan veiktist gagnvart pundinu

Svipað blendnar urðu hreyfingarnar á gjaldeyrismarkaði, þar sem Bandaríkjadalurinn, japanska jenið og danska krónan lækkuðu eilítið gagnvart íslensku krónunni, eða um 0,54% í 125,90 krónur dalurinn, um 0,84% í 1,1852 krónur jenið og 0,01% eða í 18,616 krónur fyrir eina danska krónu.

Þó danska krónan fylgi alla jafna evrunni þá stóð hún samt sem áður í stað í 138,84 krónum, en breska pundið, svissneski frankinn og sænska og norska krónan styrktust gagnvart krónunni. Þar af sænska krónan mest, eða um 0,33% í 12,911 krónur íslenskar, og næst á eftir breska pundið eða um 0,27% í 153,49 krónur.