Segja má að viðbrögð olíumarkaðarins við fréttum  af dauða Muammar Ghaddafi, einræðisherra Lýbíu, hafi verið blendin en styrjöldinni þar í landi hefur meðal annars verið kennt um hið háa olíuverð ársins. Verð á Brentolíu hækkaði um 1,3% og  við lokun markaðar kostaði tunnan 109,76 dali en í Bandaríkjunum lækkaði verð um tæplega 1% og kostaði tunnan 85,3 dali við lokun markaðar.

Bensínverð lækkaði hins vegar mikið og þegar eldsneytismarkaðnum í Rotterdam var lokað í gær var dæguverð á tonni af 95 oktana bensíni 950 dalir á tonn, sem er lækkun um 25 dali, eða 2,5%.