Búast má við því að önnur lausafjárkreppa muni eiga sér stað í byrjun næsta árs. The Guardian hefur það eftir sérfræðingum í dag að bankar muni þurfa að leitast við að auka lausafé sitt og þá helst með því að auka hlutafé.

Blaðið greinir frá því að mestar áhyggjur hafi menn af Merril Lynch sem nýlega hefur sóst eftir 5 milljörðum bandaríkjadala frá Temasek, opinberum fjárfestingasjóð frá Singapúr. Nýlega var hlutafé aukið í Citigroup bankanum með fjármagni frá Abu Dhabi óg vænta viðmælendur blaðsins að fleiri slíkar aðgerðir séu í nánd sem muni róa markaði.

Sérfræðingur frá Standard Chartered segir að það muni vakna spurningar um hvort bankar séu á annað borð með nægt eigið fé til að eiga við þau vandamál sem nýlega hafa komið upp, meðal annars í Bandaríkjunum. Annar viðmælandi blaðsins segir að fjármögnun banka geti orðið vandamál, bankar þurfi að selja frá sér eignir og leita nýrra fjárfesta eins og fyrrnefnd dæmi eru um með Citigroup.

Hvatt er til þess að seðlabankar víðs vegar um heiminn lækki stýrivexti til að auka flæði fjármagns á mörkuðum, annað gefi til kynna hættu á verðbólgu.

Á meðan þessar fréttir berast frá Bretlandi segir Market Watch frá því að þrátt fyrir hugsanlega hjöðnun á mörkuðum sé ekki hætta á kreppu og eru viðmælendur Market Watch bjartsýnir á nýtt ár. Einn viðmælandi sagði að árið yrði ekki auðvelt en engu að síður viðráðanlegt.

Á milli jóla og nýárs má búast við nýjum tölum um væntingavísitölu í Bandaríkjunum. Sérfræðingar reikna með því að neysluvísitala muni lækka og kenna þar um hækkandi orkuverði og erfiðleika á lántökum enstaklinga. Flestir eru þó sammála um að fjármálafyrirtæki muni leysa úr vandamálum sínum enda sé það eitt helsta verkefni þeirra um þessar mundir.