Stjórnendur í einkageiranum skiptast mjög í tvö horn í afstöðu sinni til frekari stóriðjuframkvæmda, en 36,1% reyndust vera þeim andvíg. Meirihlutinn var þeim raunar fylgjandi, en eigi að síður kemur það sjálfsagt ýmsum á óvart að hlutfall þeirra, sem eru þeim andvíg skuli vera svo hátt. Þetta kemur fram í viðhorfskönnun sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag.

Ef aðeins er horft til þeirra, sem afstöðu tóku eru 41,4% andvíg frekari stóriðjuáformum, en 58,6% eru þeim hlynnt.


Af svörunum verður vitaskuld ekki ráðið hvort um er að ræða almenna, persónulega afstöðu eða hvort svarendur vilja að hið opinbera hlutist til um vöxt eða visnun einstakra atvinnugreina. Þegar svörin eru greind nánar kemur hins vegar ýmislegt athygisvert í ljós og er marktækur munur á afstöðu kynja, aldurshópa, stöðu og stærð fyrirtækja stjórnendanna, sem Miðlun leitaði svara hjá fyrir Viðskiptablaðið.


Í heildina eru konur talsvert andvígari frekari stóriðjuframkvæmdum en karlar, en rétt er þá einnig að hafa í huga að konur voru aðeins um fjórðungur svarenda. Hins vegar er áhugavert að líta til þess hvort fólk sagðist mjög eða frekar fylgandi eða andvíg, því konurnar virðast mun afdráttarlausri í afstöðu sinni. Þriðjungur þeirra var mjög andvígur frekari framkvæmdum en aðeins tæplega fimmtungur karlanna. En á hinum kantinum taka þær körlunum einnig fram; liðlega fjórðungur þeirra var mjög hlynntur frekari framkvæmdum, en aðeins um fimmtungur karla. Hvað sem allri umræðu um testosterón líður virðast karlarnir því vera öfgalausari í skoðunum sínum, á þessum málum að minnsta kosti.


Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.