Michael A. Bless, forstjóri Century Aluminum, segir að nauðsynlegt sé að Landsvirkjun komi að orkusölu fyrir álver í Helguvík. Hann segir það mikinn misskilning að Century Aluminum ætli að hætta við uppbyggingu þar.

Viðskiptablaðið greindi á fimmtudaginn frá því að á fundi með fagfjárfestum hjá Bank of America Merrill Lynch hafi Bless sagt að hann væri reiðubúinn til þess að líta á fjárfestingu í Helguvík sem sokkinn kostnað. Þetta benti til þess að hann teldi litlar líkur á því að álver myndi rísa þar.

Peningunum þegar verið eytt
„Orðin eru að mínu mati algerlega misskilin. Þetta er þvert á það sem ég var að meina,“ segir Bless í samtali við Viðskiptablaðið. „Við höfum varið 150 milljónum dollara í Helguvík, helmingi fyrir kreppuna og helmingi eftir kreppuna. Punkturinn er sá að peningnum hefur verið eytt. Það er ekki hægt að ná honum til baka, hvort sem við höldum áfram með verkefnið eða við fáum, af einhverjum ástæðum, ekki að halda áfram með það. Við fáum aldrei þessar 150 milljónir dollara til baka,“ segir hann.

Hann segir því að þegar horft sé á fjárfestinguna í Helguvík og hversu arðsöm hún verði þá muni hún kosta 150 milljón dollurum minna en hún gerir í raun og veru. „Vegna þess að við tökum ekki þessar 150 milljónir með í kostnaðinn,“ segir Bless. Til dæmis megi taka að upphaflega hafi verið reiknað með því að kostnaður við fyrsta áfanga yrði 650 milljónir dala. Núna sé þá hægt að reikna með því að kostnaðurinn sé einungis 500 milljónir dala, vegna þess að 150 milljóna dala kostnaður sé sokkinn kostnaður.

„Nú horfum við bara áfram veginn þegar við horfum á hvern dal sem við þurfum að nota,“ segir hann. „Við erum því í rauninni að segja við fjárfesta okkar að þetta verkefni sé arðbærara og auðsóttara að ráðast í en ella. Vegna þess að við teljum ekki þessa 150 milljónir dala með í kostnaðinum,“ bætir hann við. Þetta sé túlkað á þann hátt að verkefnið sé strandað eða þvi sé sjálfhætt. „Ég skil ekki hvernig það gat gerst vegna þess að ég var akkúrat að taka hinn pólinn í hæðina,“ segir hann.

Láta stundarhagsmuni ekki ráða
Bless segir því af og frá að Century Aluminum ætli að hætta við fyrirhugaða fjárfestingu. „Nei, alls ekki,“ segir hann aðspurður um það hvort þeir hætti við. „Það hefur ekkert gerst síðan við undirrituðum raforkusamninga fyrir sex eða sjö árum síðan. Ekkert hefur breyst frá því að fjármálakreppan skall á. Það hefur ekkert breyst annað en það að orð sem voru sögð á fundi með fagfjárfestum hafa verið misskilin,“ segir Bless.

Bless segir að heimsmarkaðsverð á áli, sem er lágt um þessar mundir, hafi ekki áhrif á ákvörðun fyrirtækisins. Fyrirtækið láti ekki stundarhagsmuni ráða för. „Við gerðum samninga í Kentucky þegar heimsmarkaðsverð var jafn lágt ef ekki lægra en það er nú,“ segir Bless. Fyrirtækið hafi viljað fjárfesta þar þrátt fyrir aðstæður.  Hann segir að fyrirtækið hafi trú á því að markaðsverð muni hækka og þess vegna sé fyrirtækið reiðubúið til þess að halda áfram. „Við vonum að við komumst að sömu niðurstöðu á Íslandi og í Kentucky, en því miður þurfa fleiri en við að koma að þeirri ákvörðun.,“ segir hann.

Þurfa orku frá Landsvirkjun
Bless segir klárt mál að Century Aluminum þurfi orku frá Landsvirkjun fyrir álver í Helguvík. „Við teljum að svo sé,“ segir hann. Til lengri tíma litið gæti HS Orka og Orkuveita Reykjavíkur átt nægjanlega orku fyrir álverið. Það yrði hins vegar ekki fyrr en eftir fjöldamörg ár. „Til þess að þetta geti gerst í fyrirsjáanlegri framtíð þá þyrfti Landsvirkjun að kom að orkusölu. Okkur skilst að þeir eigi orku sem ekki sé verið að nota í dag. En þetta er skoðun okkar. Aðilar þurfa hins vegar að vera á einu máli og við getum ekki talað fyrir hönd Landsvirkunar. En skoðun okkar er sú, að miðað við stöðu HS Orku og Orkuveitunnar, að þá þyrfti Landsvirkjun að koma inn í þetta verkefni,“ segir hann. Aðspurður um það hvort hann sé bjartsýnn á að samningar náist við Landsvirkjun vill hann ekkert segja um það. Hann ber fyrir sig trúnaði í samningum við Landsvirkjun.