Verðmætasta eign fjárfestingafélagsins Stoða er 5,2% hlutur í Arion banka sem var um 11,6 milljarða virði um áramótin. Stoðir eru stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópi bankans.

Hlutabréfaverð bankans lækkaði um 13,4% á árinu. Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða segir í bréfi til hluthafa Stoða að þrátt fyrir það hafi afkoma Arion banka verið mjög góð í fyrra líkt og greint er frá í Viðskiptablaðinu í vikunni.

Vaxtahækkanir hafi stutt við vaxtamun bankans, aukin umsvif í hagkerfinu hafi viðhaldið þóknanatekjum og gengið hafi verið frá sölunni á Valitor til Rapyd á árinu fyrir um 13 milljarða króna.

Skipulagsferli er farið af stað vegna uppbyggingar á Blikastöðum.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þá hafi það vakið litla athygli hjá fjárfestum að Blikastaðaland, 90 hektara byggingarland í Mosfellsbæ, sé mun verðmætara en bókfært virði landsins í bókum bankans segi til um. Þá muni bankinn væntanlega halda áfram að greiða arð og ráðast í endurkaup hlutabréfa á næstunni fyrir allt að 40 milljarða króna.

Í samkomulaginu sem Arion banki gerði við Mosfellsbæ í fyrra er gert ráð fyrir að fjöldi íbúða verði 3.500 til 3.700 talsins, blanda fjölbýlis og sérbýlis, auk 150 íbúða fyrir 55 ára og eldri, skóla, íþróttaaðstöðu og atvinnuhúsnæðis. Landey, dótturfélag Arion banka á Blikastaðaland í gegnum félagið Blikastaðaland ehf. Bókfært virði Blikastaðalands hjá Arion banka nam 5,1 milljarði króna í árslok 2021.

Nánar er fjallað um afkomu og fjárfestingar Stoða í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn.