Eftir miklar hækkanir á íbúðamarkaði undanfarin misseri hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu nánast staðið í stað frá því í sumar. Í tvo mánuði í röð hefur vísitalan lækkað.

Íbúðaverð hreyfðist lítið á árinu 2019 en þá hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um ríflega 2%. Á árinu 2020 fór markaðurinn að taka við sér en það ár hækkaði íbúðaverð um 8% og árinu 2021 fór markaðurinn á flug þegar vísitala íbúðaverðs hækkað um ríflega 18%. Sú þróun hélt síðan áfram fram á mitt síðasta ár.

Frá því í janúar 2021 og þar til í desember 2022 hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu um tæplega 39%. Íbúðir í sérbýli hækkuðu um ríflega 41% á þessu tímabili og fjölbýli um rúmlega 38%. Áhugavert er að á sama tímabili hefur byggingarvísitala hækkað um tæplega 16%. Miðað við það er mikill hvati til þess að byggja nýjar íbúðir.

Verð byrjaði að lækka í ágúst

Um mitt síðasta ári kólnaði markaðurinn eins og áður sagði. Í ágúst lækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 0,4% og var það í fyrsta skiptið síðan í nóvember 2019 sem vísitalan lækkaði á milli mánaða. Vísitalan hækkaði reyndar um 0,8% í september og 0,6% í október en í nóvember lækkað hún um 0,3% og nýlega birtust svo tölur fyrir desember sem sýna að þá lækkað hún um 0,7%. Frá júlí til desember stóð vísitalan íbúðaverðs nánast í stað. Hún var 951 stig í júlí og 950,9 stig í desember.

Í desember nam tólf mánaða hækkun vísitölunnar 17%, sem vissulega er töluvert en þó minna en í júní og júlí síðastliðnum þegar 12 mánaða hækkunin nam 25%.

Ástæðurnar fyrir því að íbúðamarkaður fór á flug voru í meginatriðum tvíþættar. Í fyrsta lagi var eftirspurn umfram framboð vegna þess hversu lítið var verið að byggja á höfuðborgarsvæðinu og þá sér í lagi í Reykjavík. Í öðru lagi hafði aðgengi að ódýru lánsfjarmagni aukist samfara miklum vaxtalækkunum.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Fasteignamarkaður, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.