Blikur eru á lofti í heimshagkerfinu að mati Jacob Rothschild, stjórnarformanns RIT Capital Group. Bloomberg hefur eftir honum að búast megi við samdrætti þegar dregið verður úr stuðningi stjórnvalda við banka og atvinnulíf helstu hagkerfa heimsins. Þá segir hann verðbólgu ógna hagvexti í nýmarkaðsríkjum.

Í tilkynningu til fjárfesta segir Rothschild að efnahagsbatinn í Bandaríkjunum sé brothættur, vafi ríki um evrópska myntbandalagið og Japan horfist í augu við stórkostlega áskorun við enduruppbyggingu eftir náttúruhamfarirnar fyrr á árinu. Hann segir áhættuna bæði mikla og hnattræna.