Á síðustu árum hefur ferðaþjónustan verið langstærsti liðurinn í þjónustuviðskiptum við útlönd. Í samantekt greiningardeildar Arion banka segir að það séu blikur á lofti, hvað varðar stöðu íslensku ferðaþjónustunnar: Styrkingu krónunnar, samdrátt í neyslu hvers ferðamanns og styttri dvalartíma.

Talsverður afgangur var á vöru- og þjónustuviðskiptum síðastliðin ár. Hann var 159 milljarðar króna í fyrra og var afgangurinn tæplega 8 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Þrátt fyrir myndarlegan viðskiptaafgang virðist sem styrking krónunnar sé farin að bíta í hann og ef ekki hefði verið fyrir fjölgun ferðamanna má áætla að á fyrsta ársfjórðungi hefði verið viðskiptahalli við útlönd að því er kemur fram í greiningu Arion banka á stöðu utanríkisviðskipta.

Vöxtur í vöruútflutningi

Ef litið er fram hjá sjómannaverkfalli er umtalsverður vöxtur í vöruútflutningi, sér í lagi vegna hærra álverðs og aukningar í fiskeldi. Einnig hefur útflutningsverðlag í erlendri mynt almennt þróast á hagstæðan hátt, á meðan erlend verðbólga er lítil og olíuverð tiltölulega lágt. Á meðan litast innflutningur talsvert af miklum uppgangi í kaupmætti heimilanna og uppgangi í byggingageiranum.

Stóra spurningin, að mati greiningaraðila, er þó hvort að útflutningsgreinar geti staðið undir núverandi gengi krónunnar. Greiningardeildin telur líklegra en ekki að krónan sé yfirverðlög til lengri tíma litið.