Vörumerkjasérfræðingurinn Martin Lindstrom er þekktur fyrir óvenjulega nálgun sína á markaðsrannsóknir og á hegðun neytenda. Hann gaf nýlega út bókina Small Data – The Tiny Clues That Uncover Huge Trends, en hún er afrakstur fimmtán ára rannsóknavinnu hans á vörumerkjatryggð og kauphegðun. Við vinnslu bókarinnar tók Lindstrom viðtöl við um tvö þúsund manns í 77 löndum sem veita innsýn í daglega hegðun neytenda og hvað sú hegðun getur þýtt fyrir fyrirtæki.

„Bókin er í stuttu máli andsvar við þráhyggju nútímans á gagnasöfnun og -vinnslu, því sem kallað hefur verið „Big data“ á ensku. Margir halda að öllum hugsanlegum viðskiptaspurningum megi svara með slíkri gagnavinnslu. Ég vil aftur á móti meina að í raun séu afar fáar spurningar sem svara megi með þessum hætti. Til að Big data geti gagnast fyrirtækjum verða þau fyrst að setja fram tilgátu sem reynt er að svara með því að nota gagnasöfnin. Blind notkun gagna er afar gagnlítil.“

Lindstrom segist vinna með það sem hann kallar Small data, nokkurs konar tilfinningalegt dna. „Fólk gerir alls kyns hluti, sem við fyrstu sýn virðast ekki skipta miklu máli, en gera það þegar þú skoðar málið betur. Þessir litlu hlutir geta gefið vísbendingar um hegðun neytenda. Þessar vísbendingar er hægt að nota til að móta tilgátur og svo er hægt að sannreyna þessar tilgátur eða afsanna með notkun stærri gagnasafna.“ Lindstrom segir að stórvirk gagnavinnsla snúist öll um fylgni, en Small data um orsakasambönd.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .