Hendrik Egholm tók þann 1. október síðastliðinn við starfi forstjóra Skeljungs. Hendrik er 43 ára Færeyingur, nam við Copenhagen Business School og stjórnaði áður færeyska olíufélaginu Magn, sem hefur frá ársbyrjun 2014 verið alfarið í eigu Skeljungs. Áður en við settumst niður fékk ég strax þá tilfinningu frá Hendrik að hann væri ekki hinn hefðbundni forstjóri hjá stóru íslensku fyrirtæki. Viðhorf hans til komu Costco á íslenskan markað staðfestu tilfinninguna samstundis.

„Ríflega 40% af hagnaði Skeljungssamstæðunnar koma frá rekstri dótturfélagsins í Færeyjum. Þetta er eitthvað sem ekki allir átta sig á,“ segir Hendrik. „Um helmingur hagnaðar samstæðunnar á rætur að rekja til sölu í erlendum gjaldmiðlum. Þetta er ólíkt þeim raunveruleika sem hin olíufélögin búa við því þau eru með góða en staðbundna starfsemi en ekki al­ þjóðlega eins og Skeljungur. Ef þú horfir til Færeyja þá eigum við þar í samkeppni við annan mjög hæfan en staðbundinn keppinaut og á Íslandi erum við einnig bara í samkeppni við staðbundna keppinauta.“

Og auðvitað Costco. „Ég hef heyrt það sem hinir forstjórarnir hafa sagt um Costco, að það hafi lítil áhrif og þannig. Ég er þeim algjörlega ósammála. Ef þú horfir á Costco þá sérðu að það er mjög stöndugt fyrirtæki. Þú þyrftir að vera blindur til að sjá ekki þá staðreynd að það hefur algjörlega breytt leiknum á öllum smásölumarkaðnum á Íslandi. Ég tel að koma Costco hafi haft mjög jákvæð áhrif fyrir íslenska neytendur. Þeir hafa nýja og betri valkosti en þeir höfðu áður,“ segir Hendrik. „Kann ég vel við að eiga í samkeppni við Costco? Nei, það geri ég ekki. Ég get alveg játað það. En ég er líka þeirrar skoðunar að Costco hafi gefið okkur gott tækifæri til að fá góðar hugmyndir um hvernig við getum orðið betri og haldið okkur á tánum. Skeljungur hefur í mörg ár verið leið­ andi í að bjóða ódýrt eldsneyti fyrir bíla á Orkustöðvum sínum. Á völdum stöðvum Orkunnar bjóðum við nú upp á fast verð án afsláttar. Orkan X er að þannig einhverju leyti svar við því hvernig neytendur hegða sér. Þar er verðið lágt og gæðin þau sömu en ekki of mikil þjónusta. Bara góð vara á sanngjörnu verði sem fólk er tilbúið að kaupa. Costco er mjög gott í að gera nákvæmlega það.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.