Blockbuster, ein stærsta videoleiga Bandaríkjanna hefur nú gert opinbert tilboð sitt í rafmagnstækja verslunina Circuit City. Boð Blockbuster hljómar upp á 6-8 Bandaríkjadali á hlut að sögn fréttavefs BBC.

Greint er frá því að Blockbuster hafi boðist til að staðgreiða félagið með peningum en ekki hlutabréfum eins og svo algengt er.

Hlutabréf í Circuit City hafa lækkað töluvert síðustu misseri og var gengi félagsins 3,9 dalir á hlut við lokun markaða á föstudag. Yfirtökutilboð Blockbuster er því „ríflegt“ eins og það er orðað í frétt Bloomberg fréttaveitunnar um málið.

Reuters fréttastofan greinir frá því að Blockbuster hafi kynnt tilboð sitt þann 17. febrúar síðastlðinn en stjórn Circuit City hafi ekki enn brugðist við því. Í tilkynningu sem Blockbuster hefur sent frá sér segir að hluthafar eigi að hafa tækifæri til að ákveða sjálfir framtíð félagsins, þ.e. Circuit City og þess vegna hafi Blockbuster ákveðið að gera tilboðið opinbert nú.

„Það er greinilegt að stjórn Circuit City ætlar að draga málið og Blockbuster reynir því að fara beint til hluthafa í félaginu,“ segir viðmælandi kunnugur málinu við Reuters.

Sameinað félag væri um 18 milljarðar dollara að markaðsvirði.