Það er víðar en á Íslandi þar sem breyttir tímar eru farnir að hafa áhrif á rekstur myndbandaleiga. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá er stutt síðan Vídeóhöllinn hætti starfsemi og nú hefur Blockbuster myndbandaleigan í Bretlandi farið í greiðslustöðvun.

Í frétt Guardian segir reyndar að leigur Blockbuster, sem eru 528 talsins, verði áfram opnar á meðan skiptastjóri leitar að kaupendum, en alls ekki er útilokað að þeim verði lokað, enda eftirspurn eftir þjónustunni ekki svipur hjá sjón.

Það eru helst efnisstreymisþjónustur eins og Amazon, Netflix og iTunes sem hafa étið upp markaðshlutdeild Blockbuster, enda þurfa þessi fyrirtæki ekki að standa undir kostnaði við að reka leigur í kjötheimum.