Fjárfestar ertu svartsýnir á gengi bílaframleiðenda í Evrópu vegna gríðarlegs verðstríðs og minnkandi sölu. Skortsala á evrópskum bílaframleiðendum hefur ekki verið meiri í tvö ár. Þetta kemur fram á vef Financial Times.

Helsta áhyggjuefni fjárfesta er fjármálakreppan í Evrópu sem hefur haft mikil áhrif á alla helstu bílaframleiðendur álfunnar. Sumum þeirra hefur tekist að vega upp lélega sölu og lægri verð í Evrópu annars staðar, sérstaklega í Asíu og Norður Ameríku.

Öðrum hefur ekki tekist það. Má þar helst nefna hinn franska Peugeot og hinn ítalska Fiat. Sergio Marchionne forstjóri Fiat samsteypunnar líkti bílasölu í Evrópu við blóðbaði á dögunum. Fiat bjargaði bandaríska Chrysler árið 2009 frá gjaldþroti. Nú á Fiat 61,8% hlut í bandaríska bílaframleiðandanum og bjargaði það afkomu samsteypunnar á 2. ársfjórðungi.

Peugeot í miklum vanda

Peugeot skilaði, líkt og Fiat, lélegu uppgjöri fyrir fyrri helming ársins en tapið nam 819 milljónum evra. Skortsala á hlutabréfum í Peugeot hefur aukist mikið undanfarið árið og hafa 14,3% bréfa félagsins nú verið skortseld.

Skortsalan hefur borið mikinn ávöxt fyrir þá svartsýnu, því hlutabréf Peugeot hafa lækkað um 70% á einu ári.