Vikan virtist ætla að byrja á fremur rólegum nótum eftir helgina á evrópskum fjármálamörkuðum. Stjórnarskipti á Spáni urðu til þess að lántökukostnaður Spánverja lækkaði lítillega í byrjun dags og evran styrktist. Á öðrum kaffibolla eða svo er eins og fjárfestar hafi vaknað til lífsins og hremmingar síðustu viku endurtekið sig.

Financial Times segir líkur á því að Moody's lækki lánshæfiseinkunnir Frakka þar sem skuldakreppan á evrusvæðinu hafi neikvæð áhrif á ríkisreksturinn. Þá hafi verð á gjaldmiðlaskiptasamningum rokið upp og sé nú svo komið að kostnaðurinn við kaup á Bandaríkjadölum með evrum hafi ekki hafa verið dýrari síðan um miðjan september fyrir þremur árum - eða um svipað leyti og bandaríski fjárfestingarbankinn Lehman Brothers fór hliðina. Þá eiga bandarískir þingmenn sinn hlut í því að evrópskir fjárfestar eru fremur neikvæðir í dag en þeir eru sagðir eiga erfitt með að ná saman um aðgerðir til draga úr halla á fjárlögum.

FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur nú fallið um 2%, DAX-vísitalan í Þýskalandi farið niður um 2,3% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi lækkað um 2,4%.