*

laugardagur, 29. janúar 2022
Erlent 6. desember 2021 08:58

Blóðug helgi að baki fyrir rafmyntir

Bitcoin auk þriggja annarra rafmynta féllu allar um yfir 20% á einum tímapunkti um helgina.

Ritstjórn
epa

Helgin var nokkuð blóðug fyrir eigendur rafmynta eftir nokkrar lækkanir hlutabréfa víðsvegar um heim á föstudag. Bitcoin byrjaði að lækka þegar líða tók á föstudag, og féll svo um yfir 20% aðfaranótt laugardags þegar mest lét, en hækkaði svo aðeins á ný. Rafmyntin er enn ríflega 15% lægri nú í morgun en hún var í hádeginu á föstudag.

Aðrar rafmyntir sem féllu um yfir fimmtung um helgina voru Dogecoin og Shiba Inu, sem báðar eru kenndar við hundategund og hafa hækkað ævintýralega síðan í upphafi heimsfaraldursins, auk Solana.

Næstvinsælasta rafmyntin, Ether, féll einnig síðdegis á föstudag, en náði sér aftur á strik og hafði næstum náð fyrri styrk á sunnudag.

Nokkur ókyrrð hefur ríkt á fjármálamörkuðum síðan nýjasta afbrigði kórónuveirunnar, Omíkrón, var uppgötvað, en það hefur þegar dreifst nokkuð víða, þar á meðal hingað til lands.

Rafmyntir eru alræmdar fyrir óstöðugleika og eiga það til að hrynja í verði, að því er virðist að ástæðulausu, segir í frétt Wall Street Journal um málið. Leiða má að því líkur að aukin áhættufælni vegna nýlegra vendinga í faraldrinum og á verðbréfamörkuðum hafi hrætt marga yfir í öruggari eignir.

Stikkorð: Bitcoin rafmyntir