Rafmyntir hafa hríðfallið í verði um helgina, eða frá því á fimmtudag. Yfir billjón Bandaríkjadala – um 130 þúsund milljarðar króna – af markaðsvirði þurrkaðist út þegar allar helstu rafmyntir féllu um tveggja stafa prósentur, en verð þeirra hefur verið á niðurleið síðan í haust.

Bitcoin hefur þegar þetta er skrifað fallið um 18% frá því á fimmtudagskvöld, og Ethereum, næstvinsælasta rafmyntin, hefur fallið um 25%. Frá hápunktinum í nóvember hafa rafmyntirnar allt að því helmingast í verði.

Gangvirði Bitcoin er nú um 4 og hálf milljón króna eða um 35 þúsund Bandaríkjadali, og eitt Ethereum kostar 312 þúsund krónur eða 2.430 dali. Hvorugt verð hefur verið jafn lágt síðan í júlí á síðasta ári.

Bandarísk hlutabréf – sér í lagi áhættusöm bréf í greinum eins og tækni – hafa einnig fallið nokkuð nýlega samhliða breyttum áherslum seðlabankans þar í landi í átt að harðara taumhaldi peningastefnunnar. Sú lækkun hefur þó verið mun hófsamari.