Evrópskar hlutabréfavísitölur tóku umtalsverða dýfu í dag vegna útlits fyrir hægagang í hagkerfi Evrópu og pólitískrar óvissu í Hollandi og Frakklandi. Nýjar tölur benda til þess að mjög sé að hægjast á framleiðslu í Þýskalandi og að búast megi við áframhaldandi samdrætti á evrusvæðinu. Þá sagði seðlabanki Spánar að hagkerfi landsins hefði dregist saman um 0,4% á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Fjárfestar hafa einnig af því áhyggjur að frambjóðandi sósíalista í frönsku forsetakosningunum, Francois Hollande, fékk fleiri atkvæði en hægrimaðurinn Nicolas Sarkozy í fyrstu umferð kosninganna. Ofan á þessar áhyggjur bættist svo að hollensku stjórninni tókst ekki að ná samkomulagi um aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum og sagði forsætisráðherrann, Mark Rutte, af sér í kjölfarið. Er búist við kosningum í Hollandi fljótlega.

Breska FTSE vísitalan lækkaði um 1,85% í dag, þýska DAX lækkaði um 3,36% og franska CAC um 2,83%. Þegar þetta er ritað, nokkrum mínútum fyrir kl. 19:00, höfðu bandarískar vísitölur lækkað sömuleiðis, þó lækkunin væri ekki jafnmikil og í evrópu. Dow Jones hafði lækkað um 0,88%, Nasdaq um 1,01% og S&P 500 um 0,84%.