Bæjarráð Vesturbyggðar hefur fengið fleiri tilboð í fjölbýlishúsið að Gilsbakka 2 á Bíldudal þrátt fyrir að þegar hafi verið tekið tilboði í eignina. Frá þessu var greint á fréttavef Bæjarins besta á Ísafirði. Umrætt fjölbýlishús var auglýst til sölu fyrir skömmu. Voru tilboð í húsið opnuð þann 10. maí og var í kjölfarið ákveðið að ganga til samninga við Mjóna ehf. sem bauð ríflega 10 milljónir króna í eignina. Fjölbýlishúsið sem um ræðir var byggt árið 1979 og í því eru 11 íbúðir samtals 913,6 fermetrar að stærð og stendur húsið á um 1.500 fermetra lóð.

Fasteignamat þess er rúmar 23,5 milljónir króna og brunabótamat rúmlega 121 milljón króna. Á fundi bæjarráðs í byrjun mánaðarins var bókað að óvænt hefðu borist tvö ný tilboð eftir að hin tilboðin voru opnuð og voru þau bæði ?lítillega hærri en hæsta boð var?, eins og segir í bókun ráðsins. Eftir að hafa leitað lögfræðiálits telur bæjarráð ekki hægt að ganga framhjá því tilboði sem upphaflega hafði verið tekið. ?Einungis ef svo ólíklega færi að ekki náist viðunandi samningar um kaupin milli bæjarins og núverandi samningsaðila, opnast möguleikar fyrir aðra að bjóða í eignina, enda hæfist þá sölumeðferð á henni á nýjan leik?, segir í bókuninni.

Byggt á frétt Bæjarins besta.