Auðkýfingurinn og fyrrum borgarstjóri New York, Michael Bloomberg, hefur afturkallað framboð sitt til forsetaefnis Demókrataflokksins í forsetakosningum næstkomandi nóvember í Bandaríkjunum. BBC segir frá .

Bloomberg styður nú framboð Joe Biden, fyrrverandi varaforseta í forsetatíð Barack Obama. Bloomberg – sem hafði eytt yfir 50 milljörðum króna í framboð sitt í lok janúar – sagðist hafa gefið kost á sér til að sigra Donald Trump, sitjandi forseta og tilvonandi forsetaefni Repúblíkanaflokksins, og að nú drægi hann framboðið til baka af sömu ástæðu.

Fjórtán fylki gengu til kosninga síðastliðinn þriðjudag, en Bloomberg tókst aðeins að vinna eyjaklasann Samoa: fámennt bandarískt yfirráðasvæði í Suður-Kyrrahafi.

Joe Biden gekk hinsvegar mjög vel á þriðjudag, eftir að hafa átt erfitt uppdráttar framan af. Þingmanninum Bernie Sanders hafði á móti gengið nokkuð vel, en líkur hans á að hneppa tilnefninguna eru taldar hafa dvínað verulega eftir niðurstöður þriðjudagsins.