Bloomberg fréttastofan fjallar um stóraukna ferðamennsku á Íslandi á vef sínum sem hefst á því að vísa í komu Kardashian fjölskyldunnar hingað til lands, sem þeir segja skýrt merki þess að landið sé orðið vinsælt.

Í næstu setningu veltir greinarhöfundur þó fyrir sér að á sama tíma og stjórnvöld séu að glíma við eftirköst bankabólunnar, þá sé landið jafnvel að horfa framan í aðra bólu, nú í ferðaþjónustu.

Tryggvi Þór segir bóluna geta sprungið

Rætt er við Tryggva Þór Herbertsson, fyrrum efnahagsráðgjafa forsætisráðherrans, sem nú á hlut í veitingastað í miðbænum. „Ferðamennska er sá geiri íslenska efnahagslífsins sem einna mest bjartsýnir ríkir um núna,“ segir Tryggvi sem ekki segist vera sérstaklega áhyggjufullur yfir því að bólan geti sprungið en „það gæti gerst...ef það gerist, þá gerist það.

En ef við horfum á næstu tvö til þrjú árin, þá er veðmálið hagstætt,“ sagði bankamaðurinn og þingmaðurinn fyrrverandi.

Vangaveltur um íslenska þjóðarsál og óvissu vegna kosninga

Síðan veltir greinin fyrir sér hvort það sé hluti af þjóðarsálinni að taka hlutunum eins og þeir eru og láta sveiflurnar yfir sig ganga, vegna þess að við vorum svo lengi háð duttlungum náttúrunnar sérstaklega í fiskiðnaðinum.

Vísa þeir í að nýlega hafi matsfyrirtækið Moody´s hækkað lánshæfismat Íslands þá er mat Standard & Poor´s enn BBB+, einungis þremur stigum fyrir ofan ruslflokk. Jafnframt vísa þeir í að þingkosningarnar 29. október gætu valdið hefðbundnum flokkum skaða með tilheyrandi óvissu.

Sjö sinnum fleiri en íbúarnir

Síðan vísa þeir í tölur um vænta aukningu ferðamanna um 40% frá hástökki síðasta árs sem var 1,3 milljónir, og að spár Íslandsbanka fyrir næsta ár er um að aukningin verði um 35% til viðbótar, svo útlitið til skamms tíma sé bjart.

Ef þær spár myndu rætast yrðu ferðamennirnir orðnir sjö sinnum fleiri en íbúar landsins.

Reykjavík mettuð af ferðamönnum

Loks ræðir greinin um mettun ferðamanna í Reykjavík og hvernig áhrif þeirra sé farið að gæta víðar út í óspilltri náttúru landsins, meðal annars ísgöngin í Langjökli og aðrar fjárfestingar í ferðamannaiðnaðinum.

Loks er vitnað í ferðamann frá London sem segist alltaf hafa viljað koma hingað, sem kvartar yfir að það séu of margir ferðamenn í Reykjavík. „Þessi staður virðist snúast eingöngu um ferðamenn.“