Bloomberg fréttastofan segir að uppreisn meðal kvenna skeki nú Sjálfstæðisflokkinn í aðdraganda kosninganna í næsta mánuði.

Fréttin setur kosningarnar upp sem baráttu milli Sjálfstæðisflokksins annars vegar og Pírata hins vegar, sem þeir lýsa sem fylgismönnum beins lýðræðis sem leggja áherslu á að opna bókhald hins opinbera.

Prófkjörið kallað bakslag í kynjajafnrétti

Samkvæmt fréttinni, sem skrifuð er af Ómari Valdimarssyni hafa ellefu áhrifakonur í flokknum sagt skilið við hann eða hætt í forystusveit flokksins í kjölfar prófkjöra. Í prófkjörum í tveimur kjördæmum færðust reyndar konur niður listana, í því sem þær kalla óþolandi bakslag í jafnrétti kynjanna.

„Ástandið innan flokksins er mjög alvarlegt,“ segir Jarþrúður Ásmundsdóttir, fyrrum formaður Landssambands Sjálfstæðiskvenna, en hún er ein þeirra ellefu stjórnarmanna í landssambandinu, af fjórtán stjórnarmönnum í heildina, sem sögðu af sér, líkt og komið hefur fram í íslenskum fréttum.

„Í gegnum árin höfum við barist fyrir auknu jafnrétti innan flokksins. Nú er komið nóg.“

Baldur segir óánægju geta komið Viðreisn til góða

Fréttin fjallar síðan almennt um kosningarnar og niðurstöður helstu skoðanakannana, en einnig eilítið um klofningsframboð Evrópusinna innan Sjálfstæðisflokksins, Viðreisn, og er rætt í því samhengi við stjórnmálafræðinginn Baldur Þórhallsson, sem segir niðurstöður prófkjörsins geta „komið sér illa fyrir Sjálfstæðisflokkinn.“

Segir hann Viðreisn, sem þýtt er sem „Revival“ flokkurinn, geta grætt á uppreisninni.