„Egill Jóhannsson situr á skrifstofu sinni í Reykjavík, horfir á snæviþakta Esjuna og athugar stöðuna á gengi íslensku krónunnar á fimmtán mínútna fresti. Hann er ekki gjaldeyrismiðlari; hann er bílasali”.

Þannig hefst umfjöllun Bloomberg-fréttaveitunnar um íslensku krónuna og þau áhrif sem veiking hennar hefur fyrir íslenskt efnahagslíf.

Íslenska krónan hefur fallið í verði um 20% gagnvart evrunni það sem af er þessu ári. Af þeim sökum segist Egill, framkvæmdastjóri Brimborg, hafa þurft að hækka verðið á bílum um allt að 12%.

„Ég myndi fremur vilja eyða tíma mínum í að selja bíla. [...] En þetta er Ísland í dag. Það snýst allt um gjaldmiðilinn”, segir Egill.

Í frétt Bloomberg segir að alþjóðlegir fjárfestar séu að selja krónuna vegna áhyggna um erlenda skuldastöðu íslenska hagkerfisins, á sama tíma og fjármálastofnanir um allan heim eru tregar í taumi að veita hvor annarri aðgang að lánsfjármagni. Á það er bent í frétt Bloomberg að gengi íslensku krónunnar hafi veikst töluvert í gær, þrátt fyrir 50 punkta vaxtahækkun Seðlabankans.

Á barnum á 101 hóteli í miðborg Reykjavíkur var verið að ræða nýjustu tíðindin í íslenskum efnahagsmálum, segir í umfjöllun Bloomberg.

„Í Bandaríkjunum eða á evrusvæðinu, gæti fólk ekki sagt þér hvert gengið væri”, segir Frosti Ólafsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, yfir quesdilla og Víking bjór. „Hérna er þetta heitt umræðuefni, eitthvað sem fólk ræður um yfir kaffibolla”.

Hér er hægt að nálgast umfjöllun Bloomberg