Bloomberg fréttastofan gerir stundvísi alþjóðlegra flugfélaga að umfjöllunarefni sínu í nýrri frétt. Þar er tekið saman gögn vefsíðunnar FlightStats um það hjá hvaða flugfélögum er líklegast að lenda í seinkunum.

Í þeim tölum er tekið saman líkurnar á því að lenda í seinkunum, en þar kemur íslenska flugfélagið Icelandair ekki vel út úr samanburðinum, og er samkvæmt þessum mælingum næstversta flugfélagið og eru 41,05 prósent líkur á því að lenda í seinkunum ef flogið er með Icelandair. Versta flugfélagið er ísraelska flugfélagið El Al.

Haft er eftir Jim Hetzel, hjá FlightStats í frétt Bloomberg, að það sé tiltölulega erfitt að safna saman gögnunum yfir stundvísi flugfélaga. „Við tökum saman yfir 500 mismunandi heimildir,“ segir Hetzel og líkir ferlinu við bútasaum. Meðal þess sem litið er til í úttektinni eru hinar ýmsu opinberar tölur varðandi seinkanir ásamt öðrum gögnum tengdum flugi. „Við höfum hannað tækni til þess að sannreyna upplýsingar úr hinum ýmsu áttum. Þetta er býsna áhugavert ferli,“ segir Hetzel einnig.

Hollenska flugfélagið KLM kemur best út úr samanburðinum og eru einungis 11,47 prósent líkur á því að lenda í seinkunum hjá því flugfélagi.

Hér er hægt að sjá listana sem að Bloomberg hefur gert opinbera, sem byggðir eru á gögnum FlightStats:

Verstu flugfélögin:

10. Hainan Airlines – 30.3%
9. Korean Air – 31.74%
8. Air China – 32.73%
7. Hong Kong Airlines – 33.42%
6. China Eastern Airlines – 35.8%
5. Asiana Airlines – 37.46%
4. Philippine Airlines – 38.33%
3. Air India – 38.71%
2. Icelandair – 41.05%
1. El Al – 56%

Bestu flugfélögin:

10. Qantas – 15.7%
9. TAM Linhas Aéreas – 14.93%
8. Delta Air Lines – 14.83%
7. Singapore Airlines – 14.55%
6. ANA – 14.46%
5. Austrian – 14.26%
4. Qatar Airways – 13.66%
3. JAL – 12.2%
2. Iberia – 11.82%
1. KLM – 11.47%