Áratug eftir bankahrunið eru Íslendingar um 30% ríkari en borgarar í ESB að því er Bloomberg greinir frá. Vísað er til þess að verg þjóðarframleiðsla á mann á Íslandi eru um 30% hærri en meðaltalið í Evrópusambandinu.

Þannig sé Ísland í fimmta sæti yfir 37 ríki sem tekin eru saman, yfir landsframleiðslu á mann, en í efsta sætinu sé Lúxemborg, með yfir 153% hærri landsframleiðslu á mann en meðaltalið. Í næsta sæti sé Írland, með 81% yfir meðaltalinu.

Bendir greinin á að Ísland sé ekki aðili að Evrópusambandinu en sé hluti af Evrópska efnahagssvæðinu. Eyjan hafi náð að rétta úr kútnum eftir hrunið 2008 þar sem settar voru gjaldeyrishömlur og bankarnir teknir í gjaldþrotameðferð.

Það hafi komið sér illa fyri marga erlenda lánadrottna landsins en landið hafi einnig haldið uppi norrænu velferðarmódeli sem hafi hjálpað fólki sem glímdi við fátækt. Þessi leið landsins hafi notið hróss frá bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Nóbelsverðlaunahafanum í hagfræði, Paul Krugman.