Michael R. Bloomberg, borgarstjóri í New York og einn af auðgustu mönnum Bandaríkjanna, er sagður skoða kaup á blaðaútgáfunni The Financial Times Group. Útgáfan gefur út samnefnt viðskiptadagblað og helmingshlut í vikuritinu The Economist.

Á vef bandaríska dagblaðsins The New York Times segir að Bloomberg hafi farið í heimsókn í höfuðstöðvar The Financial Times og skoðað sig um í október. Ekki er um langan veg fyrir Bloomberg að fara en nýjar höfuðstöðvar Bloomberg-fréttaveitunnar og tengdra fyrirtækja í eigu borgarstjórans eru nokkrum götum frá skrifstofum The Financial Times.

The New York Times segir fleiri um hituna, þar á meðal fréttaveituna Thomson Reuters.

Áætlað er að verðmæti The Financial Times nemi um 1,2 milljörðum dala, jafnvirði um 150 milljörðum íslenskra króna.