Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri í New York, hefur snúið aftur sem forstjóri fjölmiðla- og upplýsingaveitunnar Bloomberg. Hann stofnaði fyrirtækið árið 1981 en hætti árið 2001 þegar hann ákvað að fara í framboð sem borgarstjóri New York. Tveir forstjórar hafa stýrt Bloomberg síðan þá. Daniel Doctoroff, sem hefur vermt forstjórastólinn síðan árið 2008 verður ráðgjafi Bloomberg um sinn, að því er fram kemur í umfjöllun bandaríska dagblaðsins The Wall Street Journal af málum borgarstjórans fyrrverandi.

Michael Bloomberg er fæddur árið 1942 og varð 72 ára í byrjun árs. Hann á 88% hlut í fyrirtækinu.

Blaðið segir að flestir hafi búist við því að Bloomberg myndi snúa sér að góðgerðarmálum eftir að hann hætti sem borgarstjóri á Gamlársdag í fyrra. Það hafi því komið á óvart að hann hafi sest í forstjórastólinn á nýjan leik. Bloomberg segir sjálfur að áhugi hans á rekstrinum hafi kviknað á nýjan leik eftir að hann hætti sem borgarstjóri.