Fréttamaður Bloombergs fréttaveitunnar er nú staddur hér á landi og hefur undanfarið átt viðtöl við menn úr hinum ýmsu geirum atvinnulífsins, meðal annars fulltrúa bifreiðaumboðs og fasteignasala. Hefur fréttamaðurinn meðal annars verið að forvitnast um það hvernig sé hægt að reka fyrirtæki í því efnahagsumhverfi sem hér ríkir. Einnig er hann að setja sig inn í áhrif hárra vaxta og veikingu krónunnar á fyrirtækjarekstur.

Talsmaður eins fyrirtækis, sem Viðskiptablaðið ræddi við, sagði að viðkomandi fréttamaður hefði komið hingað vegna þess að Íslendingar væru orðnir svo sýnilegir í alþjóðlegu hagkerfi án þess að miklar upplýsingar væru til. Ekki er vitað hvenær afrakstur fréttaleitarinnar birtist.