Mikil lækkun varð á Bandaríkjamarkaði í dag. Standard & Poor´s vísitalan hefur ekki lækkað jafn mikið á einum degi síðan WorldCom varð gjaldþrota árið 2002.

Gjaldþrot Lehman Brothers og lækkun hrávöru er það sem helst olli lækkun dagsins, samkvæmt frétt Bloomberg. Bréf Lehman lækkuðu um 95% og bréf AIG um 51%, en félagið tilkynnti um 25 milljarða afskriftir vegna undirmálslánatengdra fjárfestinga.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 3,6% í dag. Dow Jones lækkaði um 4,4% og Standard & Poor´s lækkaði um 4,6%.

Olíuverð lækkaði um 6,4 dali í dag, þ.e. 6,3%, og kostar olíutunnan nú 94,8 dali á Bandaríkjamarkaði.