Ben Bernanke, bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna stendur fast við þá skoðun sína að lágir stýrivextir seðlabankans drífi ekki* áfram óeðlilega eftirspurn erlendis og kunni hugsanlega að valda nýrri eignabólu.

Þá telur hann jafnframt að aðgerðir seðlabankans síðustu tvö árin hafi verið réttar.

Þetta sagði Bernanke, sem nú sækist eftir því að fá að sitja annað tímabil sem seðlabankastjóri, þegar hann sat fyrir svörum hjá bankanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í lok síðustu viku. Útnefning Bernanke til áframhaldandi setu sem seðlabankastjóri bíður nú samþykktar öldungadeildar.

Á fundinum var Bernanke meðal annars spurður út í fyrrgreind atriði. Nýlega lét Liu Mingkang, yfirmaður bankamála í Kína, þau ummæli falla að stýrivextir seðlabanka Bandaríkjanna, sem nú eru 0-0,25%, gætu valdið eignabólum í öðrum löndum þar sem gengi dollarans yrði áfram veikt með óbreyttum stýrivöxtum.

Bernanke, sem áður var hagfræðiprófessor við Princeton- háskóla, sat undir ágengum, og að sögn fjölmiðla vestanhafs, stundum árásargjörnum spurningum þingmanna sem margir hverja kenna honum um lélega yfirsýn við hrun fjármálakerfisins vestanhafs. Bernanke svaraði þó ásökunum fullum hálsi og sagði að önnur ríki gætu ekki hagað sinni peningastefnu eftir því hverjir stýrivextir bandaríska seðlabankans væru.

*Leiðrétting: Í prentútgáfu Viðskiptablaðsins vantaði þetta litla orð „ekki" sem að sjálfsögðu skiptir höfuðmáli í inngangi fréttarinnar. Ben Bernanke var s.s. að mótmæla því að lágir stýrvextir hefðu þau áfram sem þarna var rétt um. Um leið og þetta er leiðrétt hér er beðist velvirðingar á þessu.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .