Óhætt er að segja að hlutabréfamarkaðurinn sé kominn úr sumarfríi, sé miðað við tölur um veltu og gengi í Kauphöllinni í dag. Þannig var 6.048.575.424 króna velta með hlutabréf í 183 viðskiptum í dag og 7.128.353.515 króna velta í 56 viðskiptum á skuldabréfamarkaði. Heildarvísitalan hækkaði um 0,8%, en aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,19%.

Veltan á hlutabréfamarkaði var langsamlega mest með bréf Marel, eða 2.575.515.028 krónur í 14 viðskiptum. Mestu munar um kaup félagsins á eigin bréfum fyrir 2.030.000.000 krónur. Gengi bréfanna hækkaði um 1,5% í viðskiptum dagsins.

Mest hækkun var aftur á móti með bréf Sjóvár, eða um 3,2% í 85.197.045 króna veltu í 8 viðskiptum. Þar á eftir fylgdi Tryggingamiðstöðin með 2,89% hækkun, þar sem 83.333.550 krónur skiptu um hendur í 11 viðskiptum.

Þá hækkuðu bréf Icelandair Group um 2,75%. Nokkuð mikil velta var með bréf félagsins, eða 1.078.772.179 krónur í 34 viðskiptum. Viðskiptablaðið greindi frá því í dag að Arion banki teldi bréf Icelandair Group vera undirverðlög, en einnig var greint frá því hér á vb.is að álit Íslandsbanka væri öfugt, að bréfin væri yfirverðlögð.

Einungis eitt félag lækkaði í verði í dag, en það var Össur. Gengi bréfanna lækkaði um 1,8% í 4 viðskiptum, þar sem veltan nam 5.725.994 krónum.

Allir skuldabréfaflokkar, sem einhver viðskipti voru með, hækkuðu í verði.