Áform eru um að afskrifa 4.725 milljóna króna skuldir BM Vallár við lánastofnanir samkvæmt áætlun um endurreisn félagsins sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

BM Vallá hf. fékk greiðslustöðvun 3. febrúar sl. og var hún framlengd fremur en að lýsa félagið gjaldþrota.

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri BM Vallár, segir að greiðslustöðvunin gildi til 24. maí. Sagði hann að það ætti eftir að koma í ljós hversu mikið þyrfti að afskrifa.

Hann sagði ástæðu vandans liggja í því að félagið hafi að stærstum hluta verið fjármagnað með erlendum lánum ásamt þeim eftirspurnarbresti sem orðið hafi í hagkerfinu.

„Vinnu við endurskipulagningu hefur miðað ágætlega. Við erum í samstarfi við alla kröfuhafa og það hefur í raun og veru gengið ágætlega, bæði hvað varðar almenna kröfuhafa og lánastofnanir.“

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .