Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði á mánudag að BM Vallá hf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Félagið fékk greiðslustöðvun 3. febrúar og framlenging hennar átti að renna út 24. maí.

Saga fyrirtækisins er rakin allt aftur til ársins 1946, en fyrir gjaldþrotið var félagið með nærri 10 milljarða skuldabagga á sínum herðum. Þar af voru langtímaskuldir tæpir 7,6 milljarðar og skammtímaskuldir ríflega 2,1 milljarður króna. Þá var eigið fé fyrirtækisins neikvætt sem nam -2.535 milljónum króna og eiginfjárhlutfall -35,32%.

Stærsti kröfuhafinn, Arion banki, hafnaði á föstudag beiðni um framlagningu frumvarps um nauðasamninga og setti um leið fram kröfu að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Í endurreisnarhugmyndum var gert ráð fyrir að lánastofnanir afskrifuðu 4.725 milljónir króna og að gefin yrðu út ný skuldabréf upp á 2.600 milljónir. Þar af átti Arion banki að kaupa bréf upp á 600 milljónir króna auk þess sem hugmyndir voru uppi um að lífeyrissjóðir legðu til þá tvo milljarða sem upp á vantaði. Stærstu kröfuhafar í BM Vallá eru auk Arion banka, Landsbankinn og 6 aðrar lánastofnanir samkvæmt gögnum sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag