Erlendar skuldir sliguðu rekstur BM Vallár í kjölfar gengishruns og var BM Vallá úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur seint í maí árið 2010. Félagið hafði fengið greiðslustöðvun í febrúar sama ár og unnu stjórnendur fyrirtækisins að því í að fá heimild til að leggja fram nauðasamningsfrumvarp. Í kjölfar gjaldþrots var punktur settur aftan við rúmlega hálfrar aldar sögu BM Vallár og félagið leyst upp. Arion banki tók m.a. yfir steypustöðvarhluta fyrirtækisins en Landsbankinn m.a. límtrés- og vírnetshluta.

Víglundur Þorsteinsson, fyrrverandi aðaleigandi og stjórnarformaður BM Vallár, hefur boðað til blaðamannafundar eftir hádegi í dag þar sem hann ætlar ásamt lögmanni sínum að leggja fram gögn sem benda til að ráðherrar, einstakir starfsmenn nýju bankanna og skilanefnda hafi gerst brotlegir við ýmis ákvæði íslenskra laga sem refsingar eru lagðar við með gjaldþroti BM Vallár. Hann heldur því fram að með henni hafi stjórnvöld brotið lög og Arion banki mismunað skuldurum.

10 milljarða skuldir

Erfitt var að átta sig á stöðu BM Vallár áður en það fékk heimild til greiðslustöðvunar í febrúar fyrir tveimur árum en fyrirtækið hafði aldrei skilað ársreikningi.

Í afriti af lánabók Kaupþings sem lekasíðan Wikileaks birti haustið 2008 kom fram að fyrirtækið skuldaði bankanum 62 milljónir evra, jafnvirði ellefu milljarða á þávirði. Fyrir gjaldþrotið var félagið því í það minnsta með 10 milljarða skuldabagga á bakinu. Þar af námu langtímaskuldir tæpum 7,6 milljörðum króna og skammtímaskuldir ríflega 2,1 milljarði króna. Eigið fé fyrirtækisins var neikvætt um rúma 2,5 milljarða króna og var eiginfjárhlutfall neikvætt um rúm 35%.

Vildu um helming skulda afskrifaða

Nauðasamningarnir sem stjórnendur BM Vallár lögðu fyrir lánardrottna, Arion banka, Landsbankann og sex aðrar lánastofnanir, hljóðuðu upp á að lánastofnanir afskrifuðu rúma 4,7 milljarða króna og að gefin yrðu út skuldabréf upp á 2,6 milljarða. Afskriftin hljóðar upp á um helming skulda. Þar af átti Arion banki að kaupa bréf upp á 600 milljónir króna. Þá voru hugmyndir uppi um að lífeyrissjóðir leggðu til þá tvö milljarða sem upp á vantaði.

Fulltrúar Arion banka samþykktu ekki umleitanir stjórnenda BM Vallár og varð úr að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta.

Eftirminnilegt er þegar Víglundur ræddi klökkur um endalok fyrirtækisins í sjónvarpsfréttum. Hann gagnrýndi vinnubrögð starfsmanna bankanna á sama tíma og sagði í samtali við Vísi það hreint og skýrt að faglegur munur hafi verið á vinnubrögðum annarsvegar Lýsingar og Landsbanka, og hins vegar Arion banka, sem ekki hafi verið í faglegum vinnubrögðum. Þá sagði hann fulltrúa Arion banka hafa tekið tekið huglausu og léttu ákvörðunina, en ekki ábyrga afstöðu. Þetta á endanum valdi þeim og öllum kröfuhöfum óþarfa tjóni.