BM Vallá sem nú hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta var samkvæmt lánabók Kaupþings haustið 2008 í eigu eignarhaldsfélags í Lúxemborg. Skuldir fyrirtækisins og tengdra félaga við bankann voru þá 62,2 milljónir evra.

Samkvæmt lánabók Kaupþings (sem nú heitir Arion banki) var BM Vallá  í eigu eignarhaldsfélagsins Plateau de Pierre í Lúxemborg. Víglundur Þorsteinsson er sagður standa á bak við það félag. Var sami háttur sagður þar á og varðandi Fasteignafélagið Ártún sem stofnað var utan um fasteignir BM Vallár árið 2005. Auk þessara félaga er Sementsverksmiðjan hf. á Akranesi, sem er að hluta í eigu sömu aðila, tilgreind sem skuldari í lánabók Kaupþings fyrir hrun bankans í október 2008. Það var einmitt Arion banki, arftaki Kaupþings, sem hafnaði áætlun um endurreisn félagsins og krafðist þess að fyrirtækið yrði sett í gjaldþrot.

BM Vallá – Ártún og Sementsverksmiðjan

Lán BM Vallár og tengdra félaga samkvæmt lánabókinni fyrir þrot bankans haustið 2008 námu samtals 62,2 milljónum evra, eða rúmum 10 milljörðum króna miðað við gengi evrunnar í dag. Þar af var BM Vallá hf. með 24,4 milljónir evra (rúmir 3,9 milljarðar króna), Fasteignafélagið Ártún ehf., sem stofnað var utan um fasteignir BM Vallár árið 2005, var með 34,7 milljónir evra (rúmir 5,6 milljarðar króna) og Sementsverksmiðjan hf. var með 3,1 milljón evra í lán (rúmar 502 milljónir króna).

Sjá nánar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins