Bifreiðaframleiðandinn BMW segist harðákveðinn í að byggja nýja verksmiðju í Mexíkó, þrátt fyrir hörð viðbrögð Donald Trump tilvonandi forseta Bandaríkjanna.

Trump hefur hótað því að setja á landamæraskatt á fyrirtæki sem ætli sér að framleiða bíla í Mexíkó fyrir bandaríska markaðinn.

BMW hyggst fjárfesta 1 milljarði Bandaríkjadala, eða 114 milljörðum íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag, í verksmiðjuna í Mexíkó, meðan mörg önnur fyrirtæki hafa bakkað með sínar áætlanir aftur til Bandaríkjanna.

Á sunnudag, tilkynnti Fiat Chrysler að þeir ætluðu að fjárfesta einum milljarði dala til að framleiða þrjár gerðir af Jeep í Bandaríkjunum.

Fyrirtækið hyggst einnig flytja framleiðslu á Ram pallbílnum frá Mexíkó til Bandaríkjanna, en með þessu segir fyrirtækið að 2.000 ný störf verði til í landinu.

Trump gagnrýndi í síðustu viku General Motors fyrir að framleiða bíla í Mexíkó fyrir Bandaríkjamarkað. Þar hótaði hann jafnframt landamæraskatti á Toyota ef fyrirtækið léti verða að byggingu verksmiðju í Mexíkó.

Framkvæmdastjóri sölu og markaðssetningar hjá BMW, Ian Robertson sagði fyrirtækið staðráðið í að byggja verksmiðju sína í San Luis Potosi en hann bætti við að fyrirtækið væri einni að fjárfesta einum milljarði dala í verksmiðju sína í Suður Karólínu. Benti hann jafnframt á að BMW væri stærsti útflytjandi bíla frá Bandaríkjunum, mælt í virði.

Ford bílaframleiðandinn tilkynnti í síðustu viku að þeir hefðu hætt við byggingu verksmiðju fyrir 1,6 milljarð dala heldur hefðu þeir ákveðið þess í stað að auka við umsvif sín í Michigan.

Sagði Mark Fields, forstjóri Ford að ástæðan væri annars vegar minnkandi sala á litlum bílum og hins vegar byggði hún á trausti á stefnu Trump.