BMW ætlar að verja einum milljarði dollara í fjárfestingar í Bandaríkjunum fram til ársins 2012.

Verið er að stækka höfuðstöðvar BMW í Bandaríkjunum í New Jersey og er kostnaður við þá framkvæmd um 100 milljónir dollara.

Þar munu verða um eitt þúsund starfsmenn. Fjárfesting BMW í Bandaríkjunum er liður í þeirri áætlun fyrirtækisins að ná enn frekari fótfestu á þessum stærsta bílamarkaði í heimi.

Undanfarin 16 ár hefur BMW notið stöðugrar söluaukningar í Bandaríkjunum. Á síðasta ári seldust þar 336.000 BMW, MINI og Rolls-Royce. Í lok árs ver BMWsamstæðan 170 milljónum dollara í tvær nýjar dreifingamiðstöðvar í Pennsylvaníu og Illinois. Að þeirri uppbyggingu lokinni verður BMW með 6 dreifingamiðstöðvar fyrir varahluti í landinu.

BMW tilkynnti í marsmánuði síðastliðnum að varið yrði 750 milljónum dollara í stækkun BMW-verksmiðjunnar í Spartanburg í Suður-Karólínu. Með stækkuninni eykst framleiðslugetan úr 160.000 bílum á ári í 240.000 bíla árið 2012. Í verksmiðjunni verða framleiddir BMW X5 og X6 ásamt X3 smájeppanum