Þrátt fyrir mikinn samdrátt í sölu á nýjum bílum í Bandaríkjunum jók BMW söluna á fyrri árshelmingi um 7,3% og afhenti samtals 765.000 bíla. Engu að síður hefur BMW tekið ákvörðun um að draga úr áherslunni á Bandaríkjamarkað og beina sjónum í auknum mæli að öðrum mörkuðum.

Eins og aðrir bílaframleiðendur sér BMW fram á áframhaldandi samdrátt á Bandaríkjamarkaði og það ásamt lágu gengi dollars gerir rekstrarleigusamninga evrópskra bílaframleiðenda ekki fýsilega þar í landi. Ennfremur hefur BMW tilkynnt að hætt hafi verið við framleiðslu á BMW X7, sem átti að vera sjö sæta lúxusbíll og breikka línu fjórhjóladrifinna gerða eins og X3, X5 og X6.