Í gær héldu Bæversku mótorverksmiðjurnar BMW upp á 100 ára afmæli. Árin eitt hundrað hafa verið viðburðarrík í sögu bílaframleiðandans, sem í upphafi framleiddi flugvélamótora eins og lesa má um hér . Tvö stríð settu stórt strik í reksturinn, ekki síst Seinna stríðið.

Árið 1959 var án nokkurs vafa eitt erfiðasta ár í sögu BMW. Tap ársins nam um 9,5 milljónum þýskra marka, um 2,4 milljörðum króna á verðlagi nú og skuldirnar voru miklar.

Gjaldþrot blasti við

Deutsche Bank, stærsti lánadrottinn BMW, hafði verið með sérstakan fulltrúa í stjórn BMW um nokkurt skeið, Hans Feith. Hann lagði til tvo kosti á stjórnarfundi þann 9. desember til 1959. Annað hvort að lýsa yfir gjaldþroti eða selja fyrirtækið til Daimler-Benz, framleiðanda Mercedes-Benz.

Daimler var frekar sterkt að lokinni Seinni heimstyrjöldinni, en BMW á hinn boginn mjög veikt.BMW og Daimler-Benz voru á þessum árum ekki í samkeppni svo heitið gæti.  Fyrir Daimler-Benz snerist þetta því ekki um að drepa samkeppni. Daimler ætlaði að breyta BMW í framleiðanda á íhlutum í bíla sína.

Engu munaði að tillaga Hans Feith væri samþykkt. En einn stjórnarmanna skipti skyndilega um skoðun. Herbert Quandt átti um 30% hlut í BMW og 10% hlut í Daimler. Hann hafði komist að þeirri niðurstöðu að yfirtaka Daimler væri óumflýjanleg. En hann skipti um skoðun þvert á ráðleggingar ráðgjafa sinna og banka, en með því hætti hann stórum hluta eigna sinna.

Quandt eykur hlut sinn

Hann jók hlut sinn í BMW í nær 50% og settur var mikill kraftur í hönnun og þróun hjá BMW. Bílar BMW voru flestir hannaðir fyrir stríð og þóttu ekki í takt við tímann. Sama var reyndar upp á teningnum hjá Daimler, en mest seldi Mercedes-Benz-inn á árunum 1949 til 1955 var hannaður fyrir stríð, en algjör heppni réði því að mótin eyðilögðust ekki í loftárasum.

BMW frumsýndi Neue Klasse árið 1961 í Frankfurt. BMW 1500,1600, 1800 og 2000 voru framleiddir á frá 1962-1972. Þessi módel skiptu miklu máli fyrir endurreisn BMW. Upp úr 1970 fóru að koma bílarnir sem við þekkjum. Árið 1972 kom BMW 5 á markað í fyrsta sinn, BMW 3 kom árið 1975 og BMW 7 árið 1977.

Gríðarlegur hagnaður Quandt

Herbert Quandt efnaðist mikið á hlut sínum í BMW. Börn hans eiga 46,8% hlut í BMW í dag. Stefan á  25,75% hlut og Susanne 20,95%. Eignir Susanne Klatten eru metnar á 19,8 milljarða dala af Forbes, eða 2.574 milljarða króna. Hún er þriðji ríkasti Þjóðverjinn og í 38. sæti yfir ríkustu menn í heimi. Forbes metur eignir Stefan á 17,1 milljarða dala eða 2.223 milljarðar króna. Hann er sjötti ríkasti maður Þýskalands og 48 ríkasti maður heims.