Þýski bílaframleiðandinn BMW hyggst skera niður 850 störf í Mini bílaverksmiðju sinni í Cowley nærri Oxford í Bretlandi. Þá verða allar helgarvaktir lagðar niður.

Um 300 starfsmönum var sagt upp fyrir jól, en 4.500 starfsmenn komu aftur til vinnu 5. janúar eftir langt fjögurra vikna jólafrí.

Á vefsíðu Telegraph er greint frá því að þessi niðurskurður komi í kjölfar tímabundinnar lokunar verksmiðju í Cowley fyrir viku vegna minnkandi sölu í kreppunni. Verður verksmiðjan ekki gangsett að nýju fyrr en 23. febrúar. Fá starfsmenn einungis greidd grunnlaun sína á meðan lokunin varir.

Derek Simpson leiðtogi verkalýðsfélagsins á svæðinu segir þennan niðurskurð hjá Mini verksmiðjunum dæmi um áhrif kreppunnar á iðnfyrirtæki eins og BMW sem hafi áður verið að skila gríðarlegum hagnaði. Þá hafi verksmiðjan í Cowley líka  verið ábatasamt fyrirtæki, en þar hafa verið framleiddir allt að 600 Mini bílar á dag.