B&L hefur fengið í salinn til sín fyrsta X6 bílinn, sem er nýjasta afurð bæverska framleiðandans.

X6 er ný gerð bíls sem sameinar alla helstu kosti sportbíls og lúxusjeppa, þ.e.a.s. fágun og aksturseiginleika sportbílsins og rými og fjölhæfni lúxusjeppans. X6 er meðal annars með tölvustýrðum drifbúnaði sem kallast Dynamic Performance Control, DPC, og vinnur með BMW xDrive fjórhjóladrifinu.DPC-kerfið tryggir að senda má allt að 100% af afli vélarinnar til eins hjóls í einu.

X6 verður framleiddur með tveimur bensínvélum, 3,0 l, 306 hestafla línusexu og 4,4 lítra, 407 hestafla V8-vél, en báðar eru þær með tveimur forþjöppum.

Dísilvélarnar eru báðar 3ja lítra, annars vegar 235 hestafla og hins vegar 286 hestafla með tveimur forþjöppum. B&L hefur nú þegar selt tvo bíla af þessari gerð en geta má að verðið er frá 12,6 milljónum króna en best búnu gerðirnar eru á verðbilinu 18-19 milljónir króna.