Tveimur bönkum var lokað í Bandaríkjunum um helgina en þar með hefur 94 bönkum verið lokað á þessu ári.

Reuters fréttastofan greindi frá því í gærkvöldi að tveimur bönkum, Irwin Union Bank & Trust og Irwin Union Bank hefði verið lokað um helgina eftir að móðurfélagi bankanna, eignarhaldsfélagið Irwin Financial, hefði ekki uppfyllt eiginfjárkröfur bandaríska seðlabankans og ekki tækist að tryggja rekstur félagsins .

Samkvæmt frétt Reuters mun tapið kosta tryggingasjóð innistæðueigenda um 850 milljónir Bandaríkjadala en þá á hins vegar eftir að verðmeta og losa eignir úr þrotabúum bankanna.

Tryggingasjóður innistæðueigenda í Bandaríkjunum hefur lækkað úr 45 milljörðum dala niður í 10,4 milljarða dali það sem af er ári en sjóðurinn tryggir aðeins innistæður upp að 250 þúsund dölum.