Alls misstu um 524 þúsund manns vinnuna í Bandaríkjunum í desember mánuði samkvæmt tölum frá atvinnumálaráðuneyti Bandaríkjanna.

Atvinnuleysi vestanhafs mældist 7,2% í desember og hefur nú ekki mælst meira í 16 ár eða frá því í janúar árið 1993. Þá mældist atvinnuleysið 6,8% í nóvember síðastliðnum.

Þrátt fyrir ógnvænlegar tölur um uppsagnir í desember er þetta minna en greiningaraðilar á vegum Bloomberg fréttaveitunnar höfuð gert ráð fyrir en þeir höfðu áætlað að um 550 þúsund manns yrði sagt upp störfum.

Nýjust tölur sýna að um 584 þúsund manns var sagt upp í nóvember (áður var talið að 533 þúsund einstaklingar hefðu misst vinnuna) og um 423 þúsund manns var sagt upp í október.

Alls var um 2,6 milljónum manna sagt upp í Bandaríkjunum á síðasta ári, þar af 1,9 milljón starfsmanna síðustu fjóra mánuði ársins.