Landsframleiðsla dróst saman um 6,1% í Bandaríkjunum á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, sem er nokkuð umfram væntingar greiningaraðilar vestanhafs sem gert höfðu ráð fyrir 4,9% samdrætti.

Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna birti í dag tölur um landsframleiðslu og ljóst að hagkerfi landsins er að skreppa hratt saman því samdrátturinn nú kemur í kjölfar 6,3% samdráttar á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og 3,9% samdráttar á ársfjórðungnum þar á undan.

Landsframleiðslan hefur því dregist saman þrjá síðustu ársfjórðunga en að sögn Reuters fréttastofunnar hefur það ekki gerst frá því veturinn 1974 – 75.

„Við munum ekki sjá hagvöxt fyrr á seinni hluta þessa árs,“ segir Michael Darda, yfirhagfræðingur hjá MKM Partners í samtali við Reuters.

„Það bendir margt til þess að það verði einnig samdráttur á öðrum ársfjórðungi en hann ætti að verða minni en nú.“